Hagnýtar upplýsingar

Aðlögunaráætlun Gullborgar

Þegar ný börn byrja í leikskólanum eru foreldrar boðaðir í upphafsviðtal. Í því viðtali skiptast starfsfólk leikskólans og foreldrar á upplýsingum um barnið. Þessi viðtöl taka deildarstjórar og leikskólastjóri eða aðstoðarleikskólastjóri. Þegar börn byrja á leikskólanum byrja þau í aðlögun.  Börn og foreldrar eru að kynnast leikskólanum og fá börnin  þann tíma sem þau þurfa til að aðlagast nýjum stað og aðstæðum.

Mikilvægar upplýsingar um aðlögun barna á Gullborg
Mikilvægt er að aðlögun barns í leikskóla sé farsæl. Öryggi hvers barns er því mikilvægt og því þurfa foreldrar og leikskóli að vinna saman að því að ná fram þessu öryggi og vellíðan. Geta og aðlögunarhæfni hvers barns er höfð að leiðarljósi í aðlögun og getur því verið mismunandi eftir hverju barni, aðlögun getur því tekið allt að 10 dögum.

 • Dagur 1: Barn og foreldri mæta saman kl. 10:00 í stutta heimsókn ca. 30 - 60 mín.
 • Dagur 2: Barn og foreldri mæta saman kl. 9:30 og eru saman í leikskólanum til kl. 11:00.
 • Dagur 3: Barn og foreldri mæta saman kl. 8:30 og taka þátt í morgunverði. Foreldri er með barninu til að byrja með, fer frá, í samráði við starfsmann, í ca. 15-30 mín. Foreldrar og barn kveðja um kl. 11:15.
 • Dagur 4: Barn og foreldri mæta kl. 8:30 í morgunmat. Foreldri situr með barninu í morgunmat. Eftir morgunmat kveður foreldri barnið. Barnið er síðan í hádegisverð og er sótt kl. 11:45/12:30 (fer eftir deildum).
 • Dagur 5: Barn og foreldri mæta kl. 8:30. Foreldri kveður barnið og það tekur þátt í morgunverði, hádegisverði og hvíld. Foreldri kemur og sækir barnið eftir hvíld kl. 14:00.
 • Dagur 6: Barn og foreldri koma kl. 8:30. Foreldri kveður barnið og það tekur þátt í morgun- og hádegisverði og hvíld. Foreldri kemur kl. 15:00 og tekur þátt í kaffitíma með barninu. Síðan kveðja barnið og foreldri leikskólann.
 • Dagur 7: Barnið nýtir sinn fulla vistunartíma.

ATH! Ekki er æskilegt að fara út fyrir þessa áætlun nema í samráði við deildarstjóra.

Read more

Fatahólfin og kassarnir

Leikskólinn er vinnustaður barnanna. Þar fást þau við ýmiskonar efnivið og geta því hæglega óhreinkað föt sín. Þar sem börnin fara nær daglega út, þurfa fötin að vera í samræmi við veður hverju sinni. Merkt útiföt, skófatnaður og vettlingar skila sér betur til réttra eiganda.

Nauðsynlegt er að hafa aukaföt í kassanum ef eitthvað óhreinkast. Munið að merkja fatnað barnanna vel. Vel merkt föt skila sér betur til eigandans.

Það sem þarf að vera í kassanum:

 • Nærbuxur 2 stk
 • sokkapör/sokkabuxur 3 stk
 • Buxur 2 stk
 • Peysa 1 stk
 • Bolir 2 stk

Það sem á að hanga á snögunum/vera í hólfinu:

 • Pollagalli
 • Kuldagalli
 • Flíspeysa/hlý peysa
 • Flísbuxur/hlýjar buxur
 • Húfa/létt húfa á sumrin
 • Hlýir sokkar
 • Vettlingar 2 stk
 • Pollavettlingar

Rögn er fyrirtæki sem útbýr nafnborða og merki til þess að merkja fatnað. Hægt er að panta og ganga frá greiðslu á netinu og sent er heim. Slóðin er http://www.rogn.is Einnig er hægt að benda á álímda borða sem þola þvott frá My Name Tags https://www.mynametags.com/

Read more

Veikindi barna

Leikskólinn er ætlaður full frískum börnum og gert er ráð fyrir að þau taki þátt í öllu starfi bæði úti og inni. Þess vegna getum við ekki tekið á móti veiku barni. Börn sem eru veik eiga að vera í rólegheitum heima þar til þau eru frísk og geta tekið virkan þátt í öllu starfi leikskólans. Ef barn fær smitandi sjúkdóm á það að vera heima þar til smithætta er liðin hjá. Börn mega var inni í 1-2 daga eftir veikindi ef við getum orðið við því.

Foreldrar verða að sækja veik börn í leikskólann svo að veika barnið komist í rólegt umhverfi og til að minnka hættu á að önnur börn og starfsmenn smitist.

Leikskólabörn þurfa að vera það hress að þau geti tekið fullan þátt í leik og starfi. Við getum ekki komið til móts við beiðnir um fyrirbyggjandi inniveru þar sem það stangast á við stefnu leikskólans um útiveru barna.

Það er ekki hægt að koma í veg fyrir veikindi með því að vera inni. Útivera er hluti af starfsemi leikskólans og er börnum mjög mikilvæg. Við stefnum að því að hvert barn fari út hið minnsta einu sinni á dag og útiveru er ekki sleppt nema í algjörum undantekningartilfellum. Þau börn sem eru inni allan daginn eru í sama loftinu allan tímann og ná ekki að hreinsa lungun, styrkja sig og efla.

Read more

Afmæli

Í leikskólanum fá afmælisbörnin kórónu. Það er sunginn afmælissöngurinn og svo fær barnið að velja sér eitt lag sem börnin á deildinni syngja fyrir afmælisbarnið. Það er ekki hefð fyrir því að afmælisbörn komi með einhverjar kökur eða ís í leikskólann.

Á fundi í stjórn foreldrafélags Gullborgar var samþykkt eftirfarandi;

Afmæli leikskólabarna skal halda utan leikskólatíma þ.e. eftir kl. 17.00. Starfsmenn bera ábyrgð á börnunum þann vistunartíma sem þau eru í leikskólanum. Foreldrar vilja sjálfir fylgja og sækja börnin sín í afmæli til að kynnast foreldrum vina barna sinna. Stundum lenda starfsmenn í því að barn vill ekki fara í afmæli og boðskort hafa ekki alltaf komist til skila. Foreldrar / aðstandendur hafa ætlað að sækja barnið en barnið komið í afmæli.

Boðskort á ekki að setja í fatahólf barnanna. Foreldrar geta fengið símanúmer eða netföng hjá deildastjórum.

Vinsamlega ekki biðja starfsmenn að víkja frá þessari samþykkt.

Read more

Lyfjagjöf á leikskólatíma

Lyfjagjöf barna á ekki að fara fram í leikskólanum. Í flestum tilfellum er hægt að koma því þannig fyrir að börn fái lyfin sín heima, áður en þau koma í leikskólann og aftur þegar þau koma heim. Ef barn þarf nauðsynlega á lyfjagjöf að halda á meðan það er í leikskólanum, eru foreldrar vinsamlega beðnir um að ræða það sérstaklega við leikskólastjóra.

Read more

Slys á börnum

Í stórum barnahóp geta alltaf orðið slys. Ef barn meiðir sig hjá okkur það illa að við teljum þörf á að láta lækni skoða það, þá reynum við strax að hafa samband við foreldra.

Read more

Vistunartími barna

Við viljum biðja foreldra um að VIRÐA umsóttan vistunartíma barna sinna. Þ.e.a.s. að koma ekki með börnin of snemma eða að sækja þau of seint. Nokkur misbrestur er á þessu og viljum við benda foreldrum á að sækja um auka hálftíma ( 15 + 15 ), frekar en að syndga endalaust upp á náðina.

Read more

Opnunartími leikskólans

Opnunartími Gullborgar er frá kl 7:30 - 16:30

Read more

Hve langt er sumarfrí barna?

Á vef Leikskólasviðs Reykjavíkur eru almennar upplýsingar um sumarfrí barna.

Read more

Upplýsingar fyrir starfsfólk