Leikskólinn Gullborg er staðsettur við Rekagranda 14 og tók til starfa 1. júlí árið 1990 og er 4. deilda leikskóli í honum dvelja 80 börn samtímis.
Aðalmarkmið og hugmyndafræði leikskólans er að efla sjálfsmynd barna. Vegna þess að við teljum að sjálfsmyndin er einn af mikilvægum þáttum í mótun persónuleikans. Þar er lagður grunnur að þroska sem hefur áhrif á mótun og líf einstaklingsins hvað varðar að þekkja sjálfan sig.
Uppeldisstefna og hugmyndafræði Gullborgar byggir á kenningum E. A Erikson og A. H Maslow um sjálfsmynd einstaklinga og þróun hennar. Erikson leggur fram kenningu sem segir að við mótun sjálfsmyndar sé mikilvægt að grunnþörfum sé fullnægt. Að vera í umhverfi sem býður upp á öryggi, traust, sjálfstæði og frumkvæði. Mikilvægt er að vel sé hlúð að þessum þáttum og að barnið upplifi sig á jákvæðan hátt. Hugmyndafræði Maslow um þróun sjálfsmyndar er að umhverfið bjóði börnunum upp á að líkamlegum þörfum sé sinnt og veiti öryggi, ummhyggju, læra að virða sjálfan sig og virðing frá öðrum. Þegar vel er hlúð að þessum þáttum styrkist sjálfsmynd barna. Sjálfsmyndin byggist mest á tveimur þáttum; sjálfsöryggi og sjálfstrausti.
Sjálfsöryggi: byggist á hæfileikum sem koma innan frá og eru huglægir s.s. eigin tilfinningar, skoðanir og upplifanir og út frá þeim hæfileikum sem erfitt er að mæla og meta.
Sjálfstraust: byggist á hæfileikum og færni sem koma utan frá s.s. árangri í námi, íþróttum, tónlist og út frá þeim hæfileikum sem hægt er að mæla og meta.
Námssvið
Leikskólastarfið miðast alltaf við að barnið er í brennidepli og allir starfshættir miðast við þroska og þarfir hvers barns. Helstu námssvið sem mynda kjarnan í uppeldisstarfinu eru:
- Leikurinn
- Mál og málörvun
- Listsköpun
- Tónlist
- Hreyfing
- Útivist
- Náttúran og samfélagið
- Könnunarleikur
Leikurinn
Leikurinn kjarninn í uppeldisstarfinu í leikskólanum og er hann aðalleiðin til að ná markmiðum námskrár. Leikurinn er eðlilegasta tjáningarform barna og leiðirnar sem notaðar eru til að þau geti notið sín í leiknum eru í gegnum hópastarf, leik inn á deild, útivist og með daglegu lífi í leikskólanum. Barnið fær nógan tíma til leiks með þroskavænlegum leikföngum og viðeigandi efnivið. Kennarar taka þátt í leik barnsins út frá starfsaðferðum sem þeir hafa sett sér í daglegu starfi. Í leik inni á deild velur barn úr ákveðnum viðfangsefnum og einnig fær það að koma með sínar eigin hugmyndir. Þannig fær það tækifæri til að taka sjálft ákvarðanir og koma skoðunum á framfæri. Í útivist er stuðlað að hollri hreyfingu með skemmtilegum leikjum í jákvæðu, skapandi og öruggu umhverfi.
Mál og málörvun
Í leikskólanum er lagður grunnur að málþroska barna vegna þess að málið er mikilvægt tjáningarform til samskipta. Lögð er áhersla á málþroska með daglegum samtölum, lestri bóka, hlustun, framsögn, söngvum, þulum og kvæðum í gegnum sögu- og ljóðagerð sem stuðla að hugtakaskilningi og leik að orðum. Málörvun er fléttað inn í alla þætti leikskólastarfsins og birtist sem líkamleg tjáning, sem talmál og í ritmáli.
Deildarstjórar bera ábyrgð á að málörvun barnanna eigi sér stað í gegnum daglegt starf.
Listsköpun
Í gegnum listsköpun fá börnin tækifæri til að skapa og túlka sem hefur áhrif á tjáningu þeirra. Börnin kanna margskonar efnivið, eðli hluta og eiginleika. Börnin þjálfa samhæfingu augna og handa og fínhreyfingar eflast. Sköpunarþörf barna er mikil og þau tjá tilfinningar sínar með því að snerta, þreifa, lykta, uppgötva og rannsaka umhverfi sitt. Þau teikna, mála og móta eftir eigin hugmyndum í gegnum náttúruleg og endurunnin efni.
Deildarstjórar bera ábyrgð á að barnið njóti listsköpunar í daglegu starfi.
Tónlist
Tónlistarþroska og tónlistarlæsi öðlast börn smám saman með því að fá fjölbreytta reynslu af tónlist og kynnast virkri hlustun, næmni fyrir hljóðum, hljóðfærum og tónum. Unnið er með tónlist í skipulögðum hópum og einnig í daglegu lífi sem ýtir undir sjálfsprottinn söng og lífsgleði.
Leitast er við að flétta saman hljóð, takt og hreyfingu, sem örvuð eru með því að vinna með mismunandi hljóð og hljóðfæri í umhverfinu, sem einnig vekur ánægju og áhuga barnsins. Daglega er fengist við söng, rím og ljóðagerð. Með þessu eykst áhugi barnsins á mismunandi tónlist og fjölbreytta menningu í tónlist.
Útivist
Markmið útivistar er að auka þol og hreysti barnanna, sem einnig eykur félagsþroska og samskipti þeirra. Lögð er áhersla fjölbreyttan efnivið og farið er í gönguferðir.
Deildarstjórar bera ábyrgð á að börnin fái góða og holla útivist.
Hreyfing
Börn hafa ríka þörf fyrir að hreyfa sig frjálst og óhindrað. Í leikskólanum er lögð áhersla á hreyfiuppeldi. Hreyfing eykur líkamsskynjun og barnið nær smám saman betri stjórn á hreyfingum sínum sem hefur áhrif á sjálfsmyndina. Í hreyfileikjum öðlast barn skilning á styrk sínum, getu og fær útrás. Samhæfing hreyfinga, jafnvægi og öryggi barnsins eykst. Í útiveru skynjar barnið umhverfi sitt og kemst í snertingu við náttúruna í gegnum leikinn.
Náttúran og samfélagið
Börnin upplifa náttúruna og tengjast henni á jákvæðan hátt. Þau læra að virða hana og umgangast rétt. Umhverfi leikskólans býður fjölbreytta möguleika á að kanna og uppgötva náttúruna. Stutt er í fjöru sem býður upp á óendanlega möguleika á að njóta umhverfis sem yfirfært er í daglegt starf og leik.
Leikskólinn nýtir þau menningarlegu og félagslegu tækifæri sem umhverfið og samfélagið gefur kost á. Leikskólinn mótar sitt starf út frá innri og ytri aðstæðum í samfélaginu. Þar ríkja reglur sem allir þurfa að fara eftir og börnunum er kennt að fara eftir þeim.
Könnunarleikur
Á yngstu deild leikskólans er unnið með könnunarleikinn (Heuristic play with objects) sem börnin stjórna sjálf á eigin forsendum.
Markmið leiksins er að barnið fái að kanna með skilningarvitunum fimm; þau eru snerting, lykt, bragð, heyrn og sjón, ásamt hreyfiþroska. Barnið fær að vinna frjálst með verðlaust efni t.d. tómar dósir, hólkar, rennilásar, gamlir lyklar, hárburstar, matarílát og margt fleira sem býður upp á óteljandi möguleika. Það fær að nota forvitni sína óhindrað og einbeita sér að viðfangsefninu á rúmgóðu svæði. Kennarinn er alltaf til staðar en er ekki virkur þátttakandi í leiknum. Hann er einungis til taks fyrir börnin þurfi þau á aðstoð hans að halda.